Tónlist

Sálmar

Allt eins og blómstrið eina, 273

 Allt eins og blómstrið eina upp vex á sléttri grund fagurt með frjóvgun hreina fyrst um dags morgunstund, á snöggu augabragði af skorið verður fljótt, lit og blöð niður lagði, – líf mannlegt endar skjótt.

Svo hleypur æskan unga óvissa dauðans leið sem aldur og ellin þunga, allt rennur sama skeið. Innsigli engir fengu upp á lífsstunda bið, en þann kost undir gengu allir að skilja við.

Dauðinn má svo með sanni samlíkjast, þykir mér, slyngum þeim sláttumanni, er slær allt, hvað fyrir er: grösin og jurtir grænar, glóandi blómstrið frítt, reyr, stör sem rósir vænar reiknar hann jafnfánýtt.

Lífið manns hratt fram hleypur, hafandi enga bið, í dauðans grimmar greipur, – gröfin tekur þá við. Allrar veraldar vegur víkur að sama punkt, fetar þann fús sem tregur, hvort fellur létt eða þungt.

Hvorki fyr’ir hefð né valdi hopar dauðinn eitt strik, fæst sízt með fögru gjaldi frestur um augnablik, allt hann að einu gildir, þótt illa líki’ eða vel, bón ei né bræði mildir hans beiska heiftarþel.

Menn vaða’ í villu og svíma, veit enginn neitt um það, hvernig, á hverjum tíma eða hvar hann kemur að. Einn vegur öllum greiðir inngang í heimsins rann, margbreyttar líst mér leiðir liggi þó út þaðan.

Afl dauðans eins nam krenkja alla í veröld hér. Skal ég þá þurfa að þenkja, hann þyrmi einum mér? Adams er eðli runnið í mitt náttúrlegt hold, ég hef þar og til unnið aftur að verða mold.

Hvorki með hefð né ráni hér þetta líf ég fann, sálin er svo sem að láni samtengd við líkamann. Í Herrans höndum stendur að heimta sitt af mér, dauðinn má segjast sendur að sækja, hvað skaparans er.

Nú vel, í Herrans nafni, fyrst nauðsyn ber til slík, ég er ei þeirra jafni, sem jörðin geymir nú lík. Hvenær sem kallið kemur, kaupir sig enginn frí, Þar læt ég nótt, sem nemur, neitt skal ei kvíða því.

Ég veit, minn ljúfur lifir lausnarinn himnum á, hann ræður öllu yfir, einn heitir Jesús sá, sigrarinn dauðans sanni sjálfur á krossi dó og mér svo aumum manni eilíft líf víst til bjó.

Með sínum dauða’ hann deyddi dauðann og sigur vann, makt hans og afli eyddi, ekkert mig skaða kann, þó leggist lík í jörðu, lifir mín sála frí, hún mætir aldrei hörðu himneskri sælu í.

Jesús er mér í minni, mig á hans vald ég gef, hvort ég er úti’ eða inni, eins þá ég vaki’ og sef. Hann er mín hjálp og hreysti, hann er mitt rétta líf, honum af hjarta’ eg treysti, hann mýkir dauðans kíf.

Ég lifi’ í Jesú nafni, í Jesú nafni’ eg dey, þó heilsa’ og líf mér hafni, hræðist ég dauðann ei. Dauði, ég óttast eigi afl þitt né valdið gilt, í Kristí krafti’ eg segi: Kom þú sæll, þá þú vilt.

Hallgrímur Pétursson Hans Tomissöns sb., 1569

Á hendur fel þú honum, 38
Á hendur fel þú honum, sem himna stýrir borg, það allt, er áttu’ í vonum, og allt, er veldur sorg. Hann bylgjur getur bundið og bugað storma her, hann fótstig getur fundið, sem fær sé handa þér.

Ef vel þú vilt þér líði, þín von á Guð sé fest. Hann styrkir þig í stríði og stjórnar öllu bezt. Að sýta sárt og kvíða á sjálfan þig er hrís. Nei, þú skalt biðja’ og bíða, þá blessun Guðs er vís.

Ó, þú, minn faðir, þekkir og það í miskunn sér, sem hagsæld minni hnekkir, og hvað mér gagnlegt er, og ráð þitt hæsta hlýtur að hafa framgang sinn, því allt þér einum lýtur og eflir vilja þinn.

Þig vantar hvergi vegi, þig vantar aldrei mátt, þín bjargráð bregðast eigi til bóta’ á einhvern hátt. Þitt starf ei nemur staðar, þín stöðvar enginn spor, af himni’ er þú þér hraðar með hjálp og líkn til vor.

Mín sál, því örugg sértu og set á Guð þitt traust. Hann man þig, vís þess vertu, og verndar efalaust. Hann mun þig miskunn krýna. Þú mæðist litla hríð. Þér innan skamms mun skína úr skýjum sólin blíð.

Gerhardt / Björn Halldórsson Mikhael Haydn

Ástarfaðir himinhæða, 504
Ástarfaðir himinhæða,
heyr þú barna þinna kvak,
enn í dag og alla daga
í þinn náðarfaðm mig tak.

Náð þín sólin er mér eina,
orð þín döggin himni frá,
er mig hressir, elur, nærir,
eins og foldarblómin smá.

Einn þú hefur allt í höndum,
öll þér kunn er þörfin mín,
ó, svo veit í alnægð þinni
einnig mér af ljósi þín.

Anda þinn lát æ mér stjórna,
auðsveipan gjör huga minn,
og á þinnar elsku vegum
inn mig leið í himin þinn.

Þýskur höf. ók. / Steingrímur Thorsteinsson
J.F. Reichardt

Bjargið alda, 317

Bjargið alda, borgin mín,
byrg þú mig í skjóli þín.
Heilsubrunnur öld og ár
er þitt dýra hjartasár.
Þvo mig hreinan, líknarlind,
lauga mig af hverri synd.

Heilög boðin, Herra, þín
hefur brotið syndin mín.
Engin bót og engin tár
orka mín að græða sár.
Ónýt verk og ónýt trú,
enginn hjálpar nema þú.

Titrandi með tóma hönd
til þín, Guð, ég varpa önd,
nakinn kem ég, klæddu mig,
krankur er ég, græddu mig,
óhreinn kem ég, vei, ó, vei,
væg mér, Herra, deyð mig ei.

Þegar æviþrautin dvín,
þegar lokast augun mín,
þegar ég við sælli sól
sé þinn dóms- og veldisstól:
Bjargið alda, borgin mín,
byrg mig þá í skjóli þín.

Toplady / Matthías Jochumsson
Thomas Hastings, 1830

Dauðinn dó, en lífið lifir. Sb. 156

Dauðinn dó, en lífið lifir,
lífs og friðar sólin skær
ljómar dauðadölum yfir,
dauðinn oss ei grandað fær,
lífið sanna sálum manna
sigurskjöld mót dauða ljær.

Kóngur lífs á krossi deyddur
krónu lífs mér bjó hjá sér,
dapur nú er dauði neyddur
dýrðarlíf að færa mér.
Þótt hann æði, þótt hann hræði,
það ei framar skaðvænt er.

Hann, sem reis með dýrð frá dauða,
duft upp lætur rísa mitt,
leyst úr fornum fjötrum nauða,
fyrir blóðið helga sitt.
Hold og andi lífs á landi
lífgjafara sinn fá hitt.

Jesús minn, sem dauðann deyddir,
deyja gef mér eins og þú,
og við þig, í ljós er leiddir
lífið, æ að halda trú.
Lát mig þreyja þér og deyja,
þrá mín heit og bæn er sú.

Helgi Hálfdánarson
Neander? 1680

Drottinn vakir, Drottinn vakir. Sb. 402

Drottinn vakir, Drottinn vakir
daga’ og nætur yfir þér.
Blíðlynd eins og bezta móðir
ber hann þig í faðmi sér.
Allir þótt þér aðrir bregðist,
aldrei hann á burtu fer.
Drottinn elskar, – Drottinn vakir
daga’ og nætur yfir þér.

Löng þá sjúkdómsleiðin verður,
lífið hvergi vægir þér,
þrautir magnast, þrjóta kraftar,
þungt og sárt hvert sporið er,
honum treystu, hjálpin kemur,
hann af raunum sigur ber.
Drottinn læknar, – Drottinn vakir
daga’ og nætur yfir þér.

Þegar freisting mögnuð mætir,
mælir flátt í eyra þér,
hrösun svo þig hendir, bróðir,
háðung að þér sækja fer,
vinir flýja, – æðrast ekki,
einn er sá, er tildrög sér.
Drottinn skilur, – Drottinn vakir
daga’ og nætur yfir þér.

Þegar æviröðull rennur,
rökkvar fyrir sjónum þér,
hræðstu eigi, hel er fortjald,
hinum megin birtan er.
Höndin, sem þig hingað leiddi,
himins til þig aftur ber.
Drottinn elskar, – Drottinn vakir
daga’ og nætur yfir þér.

Sigurður Kr. Pétursson
Gunnar Wennerberg

Ég er á langferð um lífsins haf. Sb. 720

Ég er á langferð um lífsins haf
og löngum breytinga kenni.
Mér stefnu frelsarinn góður gaf.
Ég glaður fer eftir henni.
Mig ber að dýrðlegum, ljósum löndum.
Þar lífsins tré gróa’ á fögrum ströndum.
Við sumaryl og sólardýrð.

Og stundum sigli ég blíðan byr
og bræðra samfylgd þá hlýt ég
og kjölfars hinna er fóru fyrr
án fyrirhafnar þá nýt ég.
Í sólarljósi er særinn fríður
og sérhver dagurinn óðum líður,
er siglt er fyrir fullum byr.

En stundum aftur ég aleinn má,
í ofsarokinu berjast.
Þá skellur niðadimm nóttin á,
svo naumast hægt er að verjast.
Ég greini ei vita né landið lengur,
en ljúfur Jesús á öldum gengur,
um borð til mín í tæka tíð.

Mitt skip er lítið, en lögur stór
og leynir þúsundum skerja.
En granda skal hvorki sker né sjór
því skipi, er Jesús má verja.
Hans vald er sama sem var það áður,
því valdi’ er særinn og stormur háður.
Hann býður: Verði blíðalogn!

Þá hinsti garðurinn úti er,
ég eigi lönd fyrir stöfnum.
Og eftir sólfáðum sæ mig ber,
að sælum blælygnum höfnum.
Og ótal klukkur ég heyri hringja.
Og hersing ljósengla Drottins syngja.
Velkominn hingað heim til vor.

Lát akker falla ! Ég er í höfn.
Ég er með frelsara mínum.
Far vel þú æðandi dimma dröfn!
Vor Drottinn bregst eigi sínum.
Á meðan akker í æginn falla.
Ég alla vinina heyri kalla,
sem fyrri urðu hingað heim.

H. A. Tandberg, major – Vald. V. Snævarr
Östby major

Ég fel í forsjá þína. Sb. 511

Ég fel í forsjá þína,
Guð faðir, sálu mína,
því nú er komin nótt.
Um ljósið lát mig dreyma
og ljúfa engla geyma
öll börnin þín, svo blundi rótt

Matthías Jochumsson
P. C. Krossing

Ég heyrði Jesú himneskt orð. Sb. 369

Ég heyrði Jesú himneskt orð:
“Kom, hvíld ég veiti þér.
Þitt hjarta’ er mætt og höfuð þreytt,
því halla’ að brjósti mér”.

Ég kom til Jesú sár af synd,
og sorg, af þreytu’ og kvöl,
og nú er þreytta hjartað hvílt
og horfið allt mitt böl.

Ég heyrði Jesú ástarorð:
“Kom eg mun gefa þér
að drekka þyrstum lífs af lind,
þitt líf í veði er”.

Ég kom til Jesú. Örþyrst önd
þar alla svölun fann,
hjá honum drakk ég lífs af lind.
Mitt líf er sjálfur hann.

Ég heyrði Jesú himneskt orð:
“Sjá, heimsins ljós ég er.
Lít þú til mín, og dimman dvín
og dagur ljómar þér”.

Ég leit til Jesú, ljós mér skein,
það ljós er nú mín sól,
er lýsir mér um dauðans dal
að Drottins náðarstól.

Bonar / Stefán Thorarensen
Ókunnur höf.

Ég horfi yfir hafið. Sb. 440

Ég horfi yfir hafið
um haust af auðri strönd,
í skuggaskýjum grafið
það skilur mikil lönd.
Sú ströndin strjála’ og auða,
er stari’ eg héðan af,
er ströndin stríðs og nauða,
er ströndin hafsins dauða,
og hafið dauðans haf.

En fyrir handan hafið
þar hillir undir land,
í gullnum geislum vafið
það girðir skýjaband.
Þar gróa’ í grænum hlíðum
með gullslit blómin smá,
í skógarbeltum blíðum
í blómsturlundum fríðum
má alls kyns aldin sjá.

Þar sé ég sólu fegri
á súlum standa höll
í dýrð svo dásamlegri,
hún drifin gulli’ er öll.
Þar sé ég fylking fríða
og fagurbúna sveit
um ljóssins sali líða
með ljóssins ásýnd blíða
í unaðs aldinreit.

Ég hljóður eftir hlusta,
ég heyri klukkna hljóm.
Hve guðleg guðsþjónusta
er Guðs í helgidóm!
Ég heyri unaðsóma
og engla skæra raust,
um Drottins dýrðarljóma,
um Drottins verk þeir róma
um eilífð endalaust.

Valdimar Briem
Íslenskt lag?

Ég kveiki á kertum mínum. Sb. 143

Ég kveiki á kertum mínum
við krossins helga tré.
Í öllum sálmum sínum
hinn seki beygir kné.
Ég villtist oft af vegi.
Ég vakti oft og bað.
Nú hallar helgum degi
á Hausaskeljastað.

Í gegnum móðu’ og mistur
ég mikil undur sé.
Ég sé þig koma, Kristur,
með krossins þunga tré.
Af enni daggir drjúpa,
og dýrð úr augum skín.
Á klettinn vil ég krjúpa
og kyssa sporin þín.

Þín braut er þyrnum þakin,
hver þyrnir falskur koss.
Ég sé þig negldan nakinn
sem níðing upp á kross.
Ég sé þig hæddan hanga
á Hausaskeljastað.-
Þann lausnardaginn langa
var líf þitt fullkomnað.

Að kofa og konungshöllum
þú kemur einn á ferð.
Þú grætur yfir öllum
og allra syndir berð.
Þú veist er veikir kalla
á vin að leiða sig.
Þú sérð og elskar alla,
þó allir svíki þig.

Ég fell að fótum þínum
og faðma lífsins tré.
Með innri augum mínum
ég undur mikil sé.
Þú stýrir vorsins veldi
og verndar hverja rós.
Frá þínum ástareldi
fá allir heimar ljós.

Davíð Stefánsson
Guðrún Böðvarsdóttir
Páll Ísólfsson
Sigvaldi Kaldalóns

Ég lifi' og ég veit. Sb. 419

Ég lifi’ og ég veit, hve löng er mín bið,
ég lifi’, unz mig faðirinn kallar,
ég lifi’ og ég bíð, unz ég leysist í frið,
ég lifi sem farþegi sjóinn við,
Unz heyri’ eg, að Herrann mig kallar.

Ég dey og ég veit, nær dauðann að ber,
ég dey, þegar komin er stundin,
ég dey þegar ábati dauðinn er mér,
ég dey, þegar lausnin mér hentust er
og eilífs lífs uppspretta’ er fundin.

Ég ferðast og veit, hvar mín för stefnir á,
ég fer til Guðs himnesku landa,
ég fer, unz ég verð mínum frelsara hjá
og framar ei skilnaðarsorgin má
né annað neitt ástvinum granda.

Ég lifi nú þegar í Drottni í dag,
ég dey, svo að erfi ég lífið,
ég ferðast mót eilífum unaðarhag.
Hví er þá mín sál ei með gleðibrag?
Ég á þegar eilífa lífið.

Ingemann / Stefán Thorarensen
A.P.Berggreen.

Ég tigna kærleikskraftinn. Sb. 52

Ég tigna kærleiks kraftinn hljóða,
Kristur, sem birtist oss í þér.
Þú hefur föður hjartað góða,
himnanna ríki, opnað mér.
Ég tilbið undur elsku þinnar,
upphaf og takmark veru minnar.

Mitt líf í helgum huga þínum
hefur þú líknarstöfum skráð,
og allt, sem býr í barmi mínum,
bera skal vitni þinni náð,
svo aftur lýsi elskan bjarta,
endurskin þitt, frá lind míns hjarta.

Ég dýrka helga hátign þína,
himneski vinur, Drottinn minn.
Lát trú og verk og vitund mína
vegsama kærleiks máttinn þinn
og mig um alla eilífð bera
anda þíns mót og hjá þér vera.

Tersteegen / Sigurbjörn Einarsson
Bortniansky

Enginn þarf að óttast síður. Sb. 505

Sjálfur Guð á Síons-fjöllum
sól og skjöldur reynist öllum
barnaskara í böli og hörmum,
ber hann þau á föðurörmum.

Engin neyð og engin gifta
úr hans faðmi má oss svipta,
vinur er hann vina beztur,
veit um allt, er hjartað brestur.

Hann vor telur höfuðhárin,
heitu þerrar sorgartárin,
hann oss verndar, fatar, fæðir,
frið og líf í sálum glæðir.

Syng því dátt með sigurhljómi,
Síons hjörð og einum rómi,
hræðast þarftu ei, fjendur falla
fyrir Drottins orði snjalla.

Svo er endar ógn og stríðin,
upp mun renna sigurtíðin,
oss þá kallar heim til hallar
himna Guð, er lúður gjallar.

Sandell / Friðrik Friðriksson
Sænskt þjóðlag

Fagna þú, sál mín. Sb. 420

Fagna þú, sál mín. Allt er eitt í Drottni,
eilíft og fagurt, – dauðinn sætur blundur.
Þótt jarðnesk dýrð og vegsemd visni’ og þrotni,
veit ég að geymast handar stærri undur,
þótt stórtré vor í byljum jarðar brotni,
bíður vor allra’ um síðir Edenslundur.

Fagna þú, sál mín. Lít þú víðlend veldi
vona og drauma,’ er þrýtur rökkurstíginn.
Sjá hina helgu glóð af arineldi
eilífa kærleikans á bak við skýin.
Fagna þú, sál mín, dauðans kyrra kveldi,
kemur upp fegri sól, er þessi’ er hnigin.

Jakob Jóhannesson Smári
Pólskt þjóðlag

Fögur er foldin. Sb. 96

Fögur er foldin,
heiður er Guðs himinn,
indæl pílagríms ævigöng.
Fram, fram um víða
veröld og gistum
í Paradís með sigursöng.

Kynslóðir koma,
kynslóðir fara,
allar sömu ævigöng.
Gleymist þó aldrei
eilífa lagið
við pílagrímsins gleðisöng.

Fjárhirðum fluttu
fyrst þann söng Guðs englar,
unaðssöng, er aldrei þver:
Friður á foldu,
fagna þú, maður,
frelsari heimsins fæddur er.

Ingamann / Matthías Jochumsson
Þjóðlag frá Schlesíu, 1842

Fræ í frosti sefur. Sb. 166

Fræ í frosti sefur,
fönnin ei grandar því.
Drottins vald á vori
vekur það upp á ný.
Elska hans gefur
öllu líf og skjól.
Guðs míns kærleiks kraftur,
kom þú og ver mín sól.

Drottinn dó á krossi,
dæmdur og grafinn var,
sonur Guðs, er saklaus
syndir heimsins bar.
Móti hans elsku
magnlaus dauðinn er.
Kristur, með þinn kærleik
kom þú og hjá oss ver.

Hann var hveitikornið,
heilagt lífsins sáð,
sent til vor að veita
vöxt í ást og náð.
Himnanna ljómi
lýsir gröf hans frá.
Kristur, lát þinn kærleik
kveikja þitt líf oss hjá.

Stundum verður vetur
veröld hjartans í.
Láttu fræ þín lifa,
ljóssins Guð, í því.
Gef oss þitt sumar
sólu þinni frá.
Kristur, kom og sigra,
kom þú og ver oss hjá.

Frostenson / Sigurbjörn Einarsson
Franskt lag.Þ. S. raddsetti

Góður engill Guðs oss leiðir. 404

Góður engill Guðs oss leiðir
gegnum jarðneskt böl og stríð,
léttir byrðar, angist eyðir,
engill sá er vonin blíð.

Mitt á hryggðar dimmum degi
dýrðlegt oss hún kveikir ljós,
mitt í neyð á vorum vegi
vaxa lætur gleðirós.

Þó að lokist aumum aftur
allar dyr á jörðu þrátt,
helgrar vonar himinkraftur
hjálparlausum eykur mátt.

Þá er hjartabenjar blæða,
bregzt hver jarðnesk stoð og hlíf,
megnar sollin sár að græða
signuð von um eilíft líf.

Þá er jarðnesk bresta böndin,
blítt við hjörtu sorgum þjáð
vonin segir: Heilög höndin
hnýtir aftur slitinn þráð.

Blessuð von í brjósti mínu
bú þú meðan hér ég dvel,
lát mig sjá í ljósi þínu
ljómann dýrðar bak við hel.

Helgi Hálfdánarson
J.F. Reichardt
Ísólfur Pálsson

Hærra, minn Guð, til þín. Sb. 375

Hærra, minn Guð, til þín,
hærra til þín,
enda þótt öll sé kross
upphefðin mín.
Hljóma skal harpan mín:
:,: Hærra, minn Guð, til þín, :,:
hærra til þín.

Villist ég vinum frá
vegmóður einn,
köld nóttin kringum mig,
koddi minn steinn,
heilög skal heimvon mín.
:,: Hærra, minn Guð, til þín, :,:
hærra til þín.

Sofanda sýndu þá
sólstigans braut
upp í þitt eilífa
alföðurskaut.
Hljómi svo harpan mín:
:,: Hærra, minn Guð, til þín, :,:
hærra til þín.

Árla ég aftur rís
ungur af beð.
Guðs hús á grýttri braut
glaður ég hleð.
Hver og ein hörmung
hefur mig, Guð til þín,
Hærra, minn Guð, til þín,
hærra til þín.

Lyfti mér langt í hæð
lukkunnar hjól,
hátt yfir stund og stað,
stjörnur og sól,
hljómi samt harpan mín:
:,: Hærra, minn Guð, til þín, :,:
hærra til þín.

Adams / Matthías.Jochumsson
L. Mason

Heims um ból. Sb. 82

Heims um ból helg eru jól,
signuð mær son Guðs ól,
frelsun mannanna, frelsisins lind,
frumglæði ljóssins, en gjörvöll mannkind
:,: meinvill í myrkrunum lá. :,:

Heimi í hátíð er ný,
himneskt ljós lýsir ský,
liggur í jötunni lávarður heims,
lifandi brunnur hins andlega seims,
:,: konungur lífs vors og ljóss. :,:

Heyra má himnum í frá
englasöng: “Allelújá”.
Friður á jörðu, því faðirinn er
fús þeim að líkna, sem tilreiðir sér
:,: samastað syninum hjá. :,:

Sveinbjörn Egilsson
Franz Gruber, 1813

Heyr, himnasmiður. Sb. 308

Heyr, himna smiður,
hvers skáldið biður,
komi mjúk til mín
miskunnin þín.
Því heit eg á þig,
þú hefur skaptan mig,
ég er þrællinn þinn,
þú ert Drottinn minn.

Guð, heit eg á þig,
að græðir mig,
minnst, mildingur, mín,
mest þurfum þín.
Ryð þú, röðla gramur,
ríklyndur og framur,
hölds hverri sorg
úr hjartaborg.

Gæt, mildingur, mín,
mest þurfum þín
helzt hverja stund
á hölda grund.
Set, meyjar mögur,
máls efni fögur,
öll er hjálp af þér,
í hjarta mér.

Kolbeinn Tumason
Þorkell Sigurbjörnsson

Hin langa þraut er liðin. Sb. 270

Hin langa þraut er liðin,
nú loksins hlauztu friðinn,
og allt er orðið rótt,
nú sæll er sigur unninn
og sólin björt upp runnin
á bak við dimma dauðans nótt.

Fyrst sigur sá er fenginn,
fyrst sorgar þraut er gengin,
hvað getur grætt oss þá?
Oss þykir þungt að skilja,
en það er Guðs að vilja,
og gott er allt, sem Guði’ er frá.

Nú héðan lík skal hefja,
ei hér má lengur tefja
í dauðans dimmum val.
Úr inni harms og hryggða
til helgra ljóssins byggða
far vel í Guðs þíns gleðisal.

Valdimar Briem
Heinrich Isaak

Hvað bindur vorn hug. Sb. 418

Hvað bindur vorn hug við heimsins glaum,
sem himnaarf skulum taka?
Oss dreymir í leiðslu lífsins draum,
en látumst þó allir vaka,
og hryllir við dauðans dökkum straum,
þó dauðinn oss megi’ ei saka.

Til moldar oss vígði hið mikla vald,
hvert mannslíf, sem jörðin elur.
Sem hafsjór, er rís með fald við fald,
þau falla, en Guð þau telur,
því heiðloftið sjálft er huliðstjald,
sem hæðanna dýrð oss felur.

En ástin er björt sem barnsins trú,
hún blikar í ljóssins geimi,
og fjarlægð og nálægð, fyrr og nú,
oss finnst þar í eining streymi.
Frá heli til lífs hún byggir brú
og bindur oss öðrum heimi.

Af eilífðar ljósi bjarma ber,
sem brautina þungu greiðir.
Vort líf, sem svo stutt og stopult er,
það stefnir á æðri leiðir.
Og upphiminn fegri’en auga sér
mót öllum oss faðminn breiðir.

Einar Benediktsson
C. E. F. Weyse

Hve sæl, ó, hve sæl. Sb. 416

Hve sæl, ó, hve sæl er hver leikandi lund,
en lofaðu’ engan dag fyrir sólarlags stund.

Um sólskin kvað fuglinn og sá hvergi skúr,
þá sólin rann í haf, var hann kominn í búr.

Um sumardag blómið í sakleysi hló,
en sólin hvarf, og élið til foldar það sló.

Og dátt lék sér barnið um dagmálamund
en dáið var og stirðnað um miðaftans stund.

Svo örstutt er bil milli blíðu og éls,
og brugðizt getur lánið frá morgni til kvelds.

En gott átt þú, sál hver, sem Guð veitir frið,
þó gæfan þín sé hverful um veraldar svið.

Um Guðs frið þú syngur og grætur ekki skúr,
þó geymi þig um sólarlag fanganna búr.

Sem barn Guðs þú unir sem blómstur við sól,
þótt brothætt sé sem reyrinn þitt lukkunnar hjól.

Þó lukkan sé brothætt, þó ljós þitt sé tál,
sá leitar þín, sem finnur og týnir engri sál.

Hve sæl, ó, hve sæl er hver leikandi lund,
og lukkan hún er eilíf, þótt hverfi um stund.

Ingemann / Matthías Jochumsson

Í bljúgri bæn og þökk til þín. Sb. 551

Í bljúgri bæn og þökk til þín,
sem þekkir mig og verkin mín.
Ég leita þín, Guð leiddu mig
og lýstu mér um ævistig.

Ég reika oft á rangri leið,
sú rétta virðist aldrei greið.
Ég geri margt, sem miður fer,
og man svo sjaldan eftir þér.

Sú ein er bæn í brjósti mér,
ég betur kunni þjóna þér,
því veit mér feta veginn þinn,
að verðir þú æ Drottinn minn.

Pétur Þórarinsson

Kirkjan ómar öll. Sb. 74

Gleð þig særða sál,
lífsins þrautum þyngd.
Flutt er munamál,
inn er helgi hringd.
Minnstu komu Krists,
hér er skuggaskil.
Fagna komu Krists,
flýt þér tíða til.

Kirkjan ómar öll,
býður hjálp og hlíf,
þessi klukknaköll
boða ljós og líf.
Heyrið málmsins mál.
Lofið Guð sem gaf.
Og mín sjúka sál
verður hljóma haf.

Flutt er orðsins orð,
þagna hamarshögg.
Yfir stormsins storð
fellur Drottins dögg.
Lægir vonsku vind,
slekkur beiskju bál.
Teygar lífsins lind
mannsins særða sál.

Kveikt er ljós við ljós,
burt er sortans svið.
Angar rós við rós,
opnast himins hlið.
Niður stjörnum stráð,
engill fram hjá fer.
Drottins nægð og náð
boðin alþjóð er.

Guð er eilíf ást,
engu hjarta’ er hætt.
Ríkir eilíf ást,
sérhvert böl skal bætt.
Lofið Guð, sem gaf,
þakkið hjálp og hlíf.
Tæmt er húmsins haf,
allt er ljós og líf.

Stefán frá Hvítadal – Sigvaldi S. Kaldalóns

Kom, huggari, mig hugga þú. Sb. 405

Kom, huggari, mig hugga þú,
kom, hönd, og bind um sárin,
kom, dögg, og svala sálu nú,
kom, sól, og þerra tárin,

kom, hjartans heilsulind,

kom, heilög fyrirmynd,

kom, ljós, og lýstu mér,

kom, líf, er ævin þver,

kom, eilífð, bak við árin.

Sacer / Valdimar Briem

Martin Luther

Lækkar lífdaga sól. Sb. 427

Lækkar lífdaga sól.
Löng er orðin mín ferð.
Fauk í faranda skjól,
feginn hvíldinni verð.
Guð minn, gefðu þinn frið,
gleddu’ og blessaðu þá,
sem að lögðu mér lið.
Ljósið kveiktu mér hjá.

Herdís Andrésdóttir
Jón G. Þórarinsson

Langt er flug til fjarra stranda. Sb. 372

Langt er flug til fjarra stranda,
fýkur löður, stormur hvín.
Eins og fugl, sem leitar landa,
leita ég, ó, Guð, til þín.

Eins og sævarbylgjan breiða
býður faðminn þreyttri lind,
þannig, faðir, lát mig leiða
löngun háa’ að þinni mynd.

Líkt og móðir blindu barni
beinir veg af kærleiksgnótt,
leið þú mig á lífsins hjarni,
leið þú mig um harmsins nótt.

Leið þú mig í myrkri nauða,
mig þú leið, er sólin skín.
Leið þú mig í lífi’ og dauða,
leið mig, Guð, æ nær til þín.

Jakob Jóh. Smári
J. F. Reichardt

Lýs, milda ljós. Sb. 352

Lýs, milda ljós, í gegnum þennan geim,
mig glepur sýn,
því nú er nótt, og harla langt er heim.
Ó, hjálpin mín,
styð þú minn fót; þótt fetin nái skammt,
ég feginn verð, ef áfram miðar samt.

Ég spurði fyrr: Hvað hjálpar heilög trú
og hennar ljós?
Mér sýndist bjart, en birtan þvarr, og nú
er burt mitt hrós.
Ég elti skugga, fann þó sjaldan frið,
unz fáráð öndin sættist Guð sinn við.

Þú ljós, sem ávallt lýsa vildir mér,
þú logar enn,
í gegnum bárur, brim og voðasker.
Nú birtir senn.
Og ég finn aftur andans fögru dyr
og engla þá, sem barn ég þekkti fyrr.

Newman / Matthías Jochumsson
C. H. Purday

Ó, Jesús bróðir besti. Sb. 503

Ó, Jesús bróðir bezti
og barnavinur mesti,
æ, breið þú blessun þína
á barnæskuna mína.

Mér gott barn gef að vera
og góðan ávöxt bera,
en forðast allt hið illa,
svo ei mér nái’ að spilla.

Það ætíð sé mín iðja
að elska þig og biðja,
þín lífsins orð að læra
og lofgjörð þér að færa.

Þín umsjón æ mér hlífi
í öllu mínu lífi,
þín líknarhönd mig leiði
og lífsins veginn greiði.

Mig styrk í stríði nauða,
æ, styrk þú mig í dauða.
Þitt lífsins ljósið bjarta
þá ljómi’ í mínu hjarta.

Með blíðum barnarómi
mitt bænakvak svo hljómi:
Þitt gott barn gef ég veri
og góðan ávöxt beri.

Páll Jónsson
A. P. Berggreen

Ó, vef mig vængjum þínum. Sb. 594

Ó, vef mig vængjum þínum,
til verndar, Jesú, hér.
Og ljúfa hvíld mér ljáðu,
þótt lánið breyti sér.
Vert þú mér allt í öllu,
mín æðsta speki’ og ráð,
og lát um lífs míns daga
mig lifa’ af hreinni náð.

Tak burtu brot og syndir
með blóði, Jesú minn.
Og hreint mér gefðu hjarta
og helgan vilja þinn.
Mig geym í gæslu þinni,
mín gæti náð þín blíð,
að frið og hvíld mér færi
hin fagra næturtíð.

Lina Sandell – Berg / Magnús Runólfsson
Sænskt þjóðlag

Sofðu vært hinn síðsta blund. Sb. 276

Sofðu vært hinn síðsta blund,
unz hinn dýri dagur ljómar,
Drottins lúður þegar hljómar
hina miklu morgunstund.

Heim frá gröf vér göngum enn.
Guð veit, hvort vér framar fáum
farið héðan, að oss gáum,
máske kallið komi senn.

Verði, Drottinn, vilji þinn,
vér oss fyrir honum hneigjum,
hvort vér lifum eða deyjum,
veri hann oss velkominn.

Valdimar Briem
A. P. Berggreen

Son Guðs ertu með sanni. Sb. 56

Son Guðs ertu með sanni,
sonur Guðs, Jesús minn,
son Guðs, syndugum manni
sonar arf skenktir þinn,
son Guðs einn eingetinn.
Syni Guðs syngi glaður
sérhver lifandi maður
heiður í hvert eitt sinn.

Hallgrímur Pétursson
Þýskt lag, 1598

Til þín ó, Guð, ég hljóður huga sný. Sb. 347

Til þín, ó, Guð, ég hljóður huga sný, –
við heimsins iðutorg ég þreyttur bý.
Þú getur veitt mér fögnuð, ljós og frið,
ó, faðir, ég um þína návist bið.

Ó, kom þú þar, sem ligg ég særður synd,
og svala mér af þinni náðarlind,
og gef mér styrk að standa’ á fætur enn
og starfa vel, því nóttin kemur senn.

Ó, veit mér styrk í hvers kyns harmi’ og þraut,
og hjálpa mér að ganga rétta braut;
ó, faðir, tak þú hlýtt í mína hönd,
er harmþrunginn ég reika’ um skuggans lönd.

Jakob Jóh. Smári
Wm. H. Monk

Ver hjá mér, Herra. Sb. 426

Ver hjá mér, Herra, dagur óðum dvín
ó, Drottinn, ég hef lengi saknað þín.
Í æskuglaumnum gleymdi sál mín þér,
í gleðidraumnum uggði’ eg lítt að mér.

En þegar loksins lækka tók mín sól,
ég leita fór og spyrja: “Hvar er skjól?”
En veröld gegndi: “Veika dauðans hey,
þín von er fánýt, – Guð þú finnur ei”.

Þá hræddist ég. “Í húmi þessu’ eg dey”,
ég hrópa tók, “ef Guð minn finn ég ei”.
Og brjóst mitt tók að buga kvöl og nauð,
þá birtist þú og gafst mér lífsins brauð.

Þá lukust upp mín augu, Herra kær,
hve ásýnd þín var náðarrík og skær,
ó, hvílík sæla hressti’ og gladdi mig,
ó, hvílík sæla, Guð, að finna þig.

Ó, Herra, dvel nú það, sem eftir er,
og aldrei framar lát mig týna þér,
því mér er betri kvöl við Jesú kross
en konungstign, ef missti þvílíkt hnoss.

Senn slokkna öll mín litlu gleðiljós,
og líf mitt fjarar senn við dauðans ós,
og húmið stóra hylur mína brá:
Ó, Herra Jesús, vertu hjá mér þá.

Lyte / Matthías Jochumsson
Wm. H. Monk

Vertu, Guð faðir, faðir minn. Sb. 373

Vertu, Guð faðir, faðir minn,
í frelsarans Jesú nafni,
hönd þín leiði mig út og inn,
svo allri synd ég hafni.

Höndin þín, Drottinn, hlífi mér,
þá heims ég aðstoð missi,
en nær sem þú mig hirtir hér,
hönd þína’eg glaður kyssi.

Dauðans stríð af þín heilög hönd
hjálpi mér vel að þreyja,
meðtak þá, faðir mína önd,
mun ég svo glaður deyja.

Minn Jesús, andlátsorðið þitt
í mínu hjarta ég geymi,
sé það og líka síðast mitt,
þá sofna’eg burt úr heimi.

Hallgrímur Pétursson
Gamalt danskt lag
Þórarinn Guðmundsson

Vertu hjá mér, halla tekur degi. Sb. 425

Vertu hjá mér, halla tekur degi,
Herra, myrkrið kemur, dylst mér eigi.
Þegar enga hjálp er hér að fá,
hjálparlausra líknin, vert mér hjá.

Óðum sólin ævi minnar lækkar,
alltaf heimsins gleðiljósum fækkar,
breytist allt og hverfur þá og þá, –
þú, sem aldrei breytist, vert mér hjá.

Kom þú ekki’ í konungsvaldi stríðu,
kom með þinni elsku, líkn og blíðu,
kom að hugga mig, er harmar þjá, –
hæli syndarans, mér vertu hjá.

Þú mig tókst í faðm í fyrstu æsku,
fyrirleit ég tíðum þína gæzku,
aldrei þó mér sekum fórstu frá.
Fram til endans, Herra, vert mér hjá.

Með þér geðrór mæti’ eg hverju fári,
með þér verður sæla’ í hverju tári,
skeyti dauðans skelfist ég ei þá.
Skjöldur minn, ó, Jesús, vert mér hjá.

Mitt við andlát augum fyrir mínum
upp, minn Drottinn, haltu krossi þínum.
Gegnum myrkrið lífsins ljós að sjá
leyf mér, góði Jesús, vert mér hjá.

Lyte / Stefán Thorarensen

Víst ertu Jesús, kóngur klár Sb. 41

Víst ertu Jesús, kóngur klár,
kóngur dýrðar um eilíf ár
kóngur englanna, kóngur vor
kóngur almættis tignarstór.

Ó, Jesús, það er játning mín,
ég mun um síðir njóta þín,
þegar þú, dýrðar Drottinn minn,
dómstól í skýjum setur þinn.

Frelsaður kem ég þá fyrir þinn dóm,
fagnaðarsælan heyri’ eg róm.
Í þínu nafni útvaldir
útvalinn kalla mig hjá sér.

Kóng minn, Jesús, ég kalla þig,
kalla þú þræl þinn aftur mig.
Herratign enga’ að heimsins sið
held ég þar mega jafnast við.

Jesús, þín kristni kýs þig nú,
kóngur hennar einn heitir þú.
Stjórn þín henni svo haldi við,
himneskum nái dýrðar frið.

Hallgrímur Pétursson
Páll Ísólfsson

Yndislega ættarjörð. Sb. 435

Blessuð sértu sveitin mín!
sumar, vetur, ár og daga.
Engið, fjöllin, áin þín
– yndislega sveitin mín!-
heilla mig og heim til sín
huga minn úr fjarlægð draga.
Blessuð sértu sveitin mín!
sumar, vetur, ár og daga.

Yndislega ættarjörð,
ástarkveðju heyr þú mína,
þakkarklökkva kveðjugjörð,
kveð ég líf þitt, móðir jörð.
Móðir bæði mild og hörð
mig þú tak í arma þína.
Yndislega ættarjörð,
ástarkveðju heyr þú mína.

Fagra, dýra móðir mín
minnar vöggu griðastaður
nú er lífsins dagur dvín,
dýra, kæra fóstra mín,
búðu’ um mig við brjóstin þín.
Bý ég þar um eilífð glaður.
Fagra, dýra móðir mín,
minnar vöggu griðastaður.

Faðir lífsins, faðir minn,
fel ég þér minn anda’ í hendur.
Foldin geymi fjötur sinn.
Faðir lífsins, Drottinn minn,
hjálpi mér í himin þinn
helgur máttur, veikum sendur.
Faðir lífsins, faðir minn,
fel ég þér minn anda’ í hendur.

Sigurður Jónsson frá Arnarvatni
Bjarni Þorsteinsson

Það aldin út er sprungið. Sb. 90

Það aldin út er sprungið
og ilmar sólu mót,
sem fyrr var fagurt sungið
af fríðri Jesse rót.
Og blómstrið það á þrótt
að veita vor og yndi
um vetrar miðja nótt.

Þú ljúfa liljurósin,
sem lífgar helið kalt
og kveikir kærleiksljósin
og krýnir lífið allt.
Ó, Guð og maður, greið
oss veg frá öllu illu
svo yfirvinnum deyð.

Þýskur höf. ók. / Matthías Jochumsson
M. Praetorius raddsetti (1609)

Þín náðin, Drottinn, nóg mér er. Sb. 365

Þín náðin, Drottinn, nóg mér er,
því nýja veröld gafstu mér,
í þinni birtu’ hún brosir öll,
í bláma sé ég lífsins fjöll.

Ég veit, að þú ert þar og hér,
hjá þjóðum himins, fast hjá mér,
ég veit þitt ómar ástarmál
og innst í minni veiku sál.

Ef gleðibros er gefið mér,
sú gjöf er, Drottinn, öll frá þér,
og verði’ af sorgum vot mín kinn,
ég veit, að þú ert faðir minn.

Þín náðin, Drottinn, nóg mér er,
því nýja veröld gafstu mér.
Þótt jarðnesk gæfa glatist öll,
ég glaður horfi’ á lífsins fjöll.

Einar H. Kvaran
C. Balle

Þitt lof, ó, Drottinn vor. Sb. 19

Þitt lof, ó, Drottinn vor,
himnarnir hljóma,
þitt heilagt nafnið prísa ber.
Vor jörð skal söngvana enduróma:
Þú alheims stýrir, lof sé þér.
Þú reistir hvelfingar himinsins heima,
þín hönd gaf ljósið skærri sól.
Þú ekur sigrandi gegnum geima
á geislans braut að yzta pól.

Gellert / Þorsteinn Gíslason
L. van Beethoven

Þótt kveðji vinur einn og einn. Sb. 417

Þótt kveðji vinur einn og einn
og aðrir týnist mér,
ég á þann vin, sem ekki bregzt
og aldrei burtu fer.

Þó styttist dagur, daprist ljós
og dimmi meir og meir,
ég þekki ljós, sem logar skært,
það ljós, er aldrei deyr.

Þótt hverfi árin, líði líf,
við líkam skilji önd,
ég veit, að yfir dauðans djúp
mig Drottins leiðir hönd.

Í gegnum líf, í gegnum hel
er Guð mitt skjól og hlíf,
þótt bregðist, glatist annað allt,
hann er mitt sanna líf.

Margrét Jónsdóttir

Þú, Guð, sem stýrir stjarnaher. Sb. 357

Þú, Guð, sem stýrir stjarna her
og stjórnar veröldinni,
í straumi lífsins stýr þú mér
með sterkri hendi þinni.

Stýr mínu hjarta’ að hugsa gott
og hyggja’ að vilja þínum,
og má þú hvern þann blett á brott,
er býr í huga mínum.

Stýr minni tungu’ að tala gott
og tignar þinnar minnast,
lát aldrei baktal, agg né spott
í orðum mínum finnast.

Stýr minni hönd að gjöra gott,
að gleði’ ég öðrum veiti,
svo breytni mín þess beri vott,
að barn þitt gott ég heiti.

Stýr mínum fæti’ á friðar veg,
svo fótspor þín ég reki
og sátt og eining semji ég,
en sundrung aldrei veki.

Stýr mínum hag til heilla mér
og hjálpar öðrum mönnum,
en helzt og fremst til heiðurs þér,
í heilagleika sönnum.

Stýr mínu fari heilu heim
í höfn á friðarlandi,
þar mig í þinni gæzlu geym,
ó, Guð minn allsvaldandi.

Valdimar Briem
W.A.Mozart

Þú, Kristur, ástvin alls sem lifir. Sb. 51

Þú, Kristur, ástvin alls, sem lifir,
ert enn á meðal vor.
Þú ræður mestum mætti yfir
og máir dauðans spor.
Þú sendir kraft af hæstum hæðum,
svo himinvissan kveikir líf í æðum,
og dregur heilagt fortjald frá.
:,: Oss fegurð himins birtist þá. :,:

Þín elska nær til allra manna,
þótt efinn haldi þeim,
og lætur huldar leiðir kanna
að ljóssins dýrðarheim.
Vér skulum þínir vottar vera
og vitnisburð um stórmerki þín bera,
því þú ert eilíf ást og náð
:,: og öllum sálum hjálparráð. :,:

Valdimar V. Snævarr.
W. A. Mozart

Tónlist

Algeng forspil-eftirspil

Adiagio

Albinoni

Adigio
Bach
Air á G streng
Bach
Amazing Grace
Erlent lag
Ave Maria
Schubert
Ave Maria
Bach/Gounod
Ástarkveðja
Elgar
Autumn leaves
Bæn vorar frúar
Boellman
Canon
J. Pachelbel
Ég elska hafið
Ég leitaði blárra blóma
Tómas Guðmundsson, Gylfi Þ. Gíslason
Fangakórinn
Verdi
Fram í heiðanna ró
Daniel E. Kelly
Gabrel’s oboe
Ennio Morricone
Góða nótt
Oddgeir Kristjánsson, Ási í Bæ
Hugleiðing
Chopin
Intermezzo
Handel
Kvöldsigling

Gísli Helgason

Latanie
Schubert
Máríusvers
Páll Ísólfsson
Memory
Andrew L. Webber
Nína
Pergolesi
Næturljóð
Chopin
Ó blessuð vertu sumarsól
Ingi T. Lárusson
Pílagrímakórinn
Wagnes
Preére A Notredame (Maríubæn)
Ramóna
Malbe Wayne, L. Wolfe Gilbert
Siciliano
J.S.Bach
Skín við sólu Skagafjörður
Sigurður Helgason
Slá þú hjartans hörpu strengi
Bach
Sorgarmars
Chopin
Sunnudagur selstúlkunnar
Elo Bull
Sveitin mín
Bjarni Þorsteinsson
Tears in heaven
Eric Clapton
Yesterday
Paul McCartney
Undir bláhimni
Joe Lyons, Sam C. Hart
What a wonderful world
Louis Armstrong
Við gengum tvö
Friðrik Jónsson
Von
Ólafur Sveinn Traustason