Athafnir

Það skal ítrekað að þetta eru aðeins dæmi um hvernig athafnir fara oftast fram. Aðstandendum er bent á að hika ekki við að bera fram aðrar óskir við prest/athafnarstjóra eða útfararstjóra.

Kistulagningarbæn

Oftast eru nánustu aðstandendur og þeir sem óskað hefur verið eftir viðstaddir kistulagningarbænina. Kistan er höfð opin ef hægt er og þá er hafður klútur/blæja yfir ásjónu þess látna. Þegar prestur/athafnastjóri hefur lokið máli sínu signa viðstaddir yfir þann látna og taka klútinn/blæjuna af ef þeir vilja. Stundum vilja aðstandendur það ekki. Algengt er orðið að hafa kistulagningu fyrir útförina þ.e. 30-70 mínútur fyrir útför og þá fer kistulagning fram í þeirri kirkju/kapellu sem útförin fer fram í.

Í kirkjugarði

Algengast er að moldun fari fram í kirkju en einnig er mögulegt að láta moldun fara fram í kirkjugarði. Að lokinni kirkjuathöfn er kista þess látna borin að líkbíl. Ættingjar fylgja líkbílnum í kirkjugarðinn. Líkmenn bera síðan kistuna að gröfinni og hún látin síga. Aðstandendur ganga að gröf þess látna og kveðja. Blóm og kransar eru sett til hliðar við gröfina og síðan ofan á leiðið þegar starfsmenn garðsins hafa gengið frá gröfinni.

Ef óskað hefur verið eftir þá er hægt að setja trékross með skilti á leiðið strax að jarðsetningu lokinni.

Borgaraleg útför

Hægt er að hafa borgaralega útför, það er án prests. Fólk í öllum trúfélögum og utan á rétt á legstað í kirkjugarði.

Kveðjuathöfn

Kveðjuathöfn er þegar sá látni er greftraður annars staðar en athöfnin fer fram, til dæmis þegar athöfn fer fram í Reykjavík og kistan síðan flutt út á land.

Minningarathöfn

Minningarathöfn er haldin þegar hinn látni hefur verið grafinn fjarri heimahögum sínum eða lík ekki fundist, til dæmis sjóslys.

Útfarir

Þegar aðstandendur koma til athafnar taka útfararstjórinn og kirkjuvörður á móti þeim. Nánustu aðstandendur sitja gjarnan fremst vinstra megin. Ef kista er borin út sitja líkmenn oftast fremst hægra megin. Líkmenn þurfa ekki að sitja saman, heldur setið hjá sínu fólki sé þess óskað. Líkmenn eru yfirleitt 6 eða 8.

Útfararstjóri ræðir við líkmenn fyrir athöfn og útskýrir fyrir þeim hvernig best sé að bera sig að. Sama gildir um ef kransar og aðrar skreytingar eru bornar út. Stundum óska aðstandendur eftir því að tónlistarflutningur hefjist um það bil 20 mínútum fyrir athöfn.

Útför gæti til dæmis verið með þessum hætti

 • Forspil
 • Bæn
 • Tónlist/Sálmur
 • Ritningarorð
 • Tónlist/sálmur
 • Ritningarorð eða Guðspjall
 • Tónlist/sálmur
 • Minningarorð
 • Tónlist/sálmur
 • Bæn
 • Faðir vor
 • Tónlist/sálmur
 • Moldun
 • Tónlist/sálmur
 • Blessun
 • Eftirspil