Bálfarir

Bálför er að öllu leyti eins og venjuleg útför, nema að ekki er farið beint í kirkjugarð að athöfn lokinni. Farið er með kistuna í Bálstofuna í Fossvogi þar sem bálför fer fram síðar. Duftkerið er sett niður seinna og þá geta aðstandendur verið viðstaddir ásamt presti/athafnastjóra, ef óskað er.

Sérstakir duftreitir eru í Fossvogskirkjugarði, Gufuneskirkjugarði, Kópavogskirkjugarði, Garðakirkjugarði, Hafnarfjarðarkirkjugarði, Lágafellskirkjugarði og Mosfellskirkjugarði. Einnig er hægt að setja duftker í venjulegan legstað og í leiði hjá ættingjum eða vinum.

Útfylla þarf sérstakt eyðublað hjá útfararstjóra, ef bálför er valin.

Bálfarir hafa stöðugt verið að aukast undanfarin ár og áratugi, og eru orðnar stór hluti af öllum útförum á Reykjavíkursvæðinu, og gera má ráð fyrir að aukningin eigi eftir að verða meiri á næstu áratugum.

Kirkjugarðar Reykjavíkurprófastsdæma hafa gefið út bækling um bálfarir með ýmsum upplýsingum varðandi bálför, og eru eftirfarandi greinar úr honum, greinarnar eru birtar með góðfúslegu leyfi KGRP.

Nokkur minnisatriði um bálfarir
Einstaklingur sem vill gefa út yfirlýsingu um að útför hans verði bálför getur snúið sér til útfararstofu eða skrifstofu kirkjugarða og fengið þar sérstakt eyðublað til þess að fylla út. Tilskilinna leyfa er þá aflað og óskin skráð hjá Bálstofunni.

Aðstandendur velja milli jarðarfarar og bálfarar ef ekki liggur fyrir ósk hins látna.
Bálför er í öllum atriðum eins og venjuleg útför nema að því leyti að kista er ekki borin til grafar. Kistulagning og útfararathöfn í kirkju eru með venjubundnum hætti.
Eftir bálför ákveða aðstandendur hvenær duftker er sett í jörð í samráði við útfararstofu, en það skal þó jarðað innan árs.
Stærð hvers leiðis í duftreit á jafnan að vera um hálfur fermetri og í reglugerð hvers kirkjugarðs eru fyrirmæli um stærð minnisvarða í duftreitum.

Dánarvottorð, staðfesting á að tilkynning um látið hafi borist sýslumanni og vottorð frá lögreglustjóra um að engir meinbugir séu á fyrirætlun um bálför, þurfa að vera til staðar. Útfararstofur aðstoða við útvegun tilskilinna vottorða.

Oft er prestur/athafnastjóri kvaddur til þegar duftker er jarðsett og flytur hann þá bæn og blessunarorð við gröfina.

Hvað gerist við líkbrennslu?
Tekið skal fram, áður en líkbrennslu er lýst, að útförin er með nákvæmlega sama hætti hvort sem um bálför er að ræða eða jarðarför. Reyndar er það sem gerist við líkbrennslu ekki í eðli sínu frábrugðið því sem gerist er líkami er grafinn í jörð. Sömu efnahvörfin eiga sér stað, munurinn liggur aðeins í því að upptaka súrefnis, þ.e.a.s. bruninn, er miklu hraðari við líkbrennslu heldur en við rotnun líkamans í jarðveginum.

Við bálför er kista hins látna sett inn í líkbrennsluofn og þar tendrast hún eldi vegna hins háa hita í ofninum og brennur af eigin orku trjáviðarins. Kista og líkami breytast í ösku á um það bil tveimur klukkustundum. Þegar bruna lýkur er askan sett í sérstaklega merkt duftker og því lokað.

Þegar bálför er gerð fer fram nákvæm skráning og er hinn látni tilgreindur í dagbókum Bálstofu Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma, sem er eina bálstofa landsins.

Eins og áður sagði er bálför í engu frábrugðin venjulegri útför nema að því leyti að kistan er ekki borin til grafar. Aðrir þættir, eins og kistulagning og útfararathöfn í kirkju, eru með venjubundnum hætti.
Aðstandendur fá uppgefið á hvaða degi líkbrennsla fer fram og er þá hægara um vik að ákveða jarðsetningardag duftkers.

Þegar bruni er afstaðinn er askan varðveitt í duftkeri og ákveða aðstandendur hvenær duftkerið er grafið í samráði við útfararstofu, þó eigi síðar en ári eftir bálför. Oft er prestur kvaddur til þegar duftker er jarðsett og flytur hann þá bæn og blessunarorð við gröfina.

Grafreitir fyrir duftker – fjölskyldugrafreitir

Sérstakur grafreitur fyrir duftker er í Fossvogskirkjugarði og var hann endurhannaður af Einari Sæmundsen landslagsarkitekt og endurgerður á smekklegan og vandaðan hátt 1991. Grafreiturinn er 5500 fermetrar að stærð.
Fjögur þúsund fermetra grafreitur fyrir duftker hefur verið gerður í Gufuneskirkjugarði.

Í drögum að skipulagi nýs kirkjugarðs í Kópavogi er einnig gert ráð fyrir duftreit. Einnig er hægt að setja duftker í hvaða grafreit sem er með samþykki umsjónarmanns grafarstæðis. Þannig er hægt að útbúa fjölskyldugrafreiti utan hinna hefðbundnu duftreita.

Fósturreitur og minnisvarði um líf

Þegar um fósturlát er að ræða er bálför venja.
Í Fossvogskirkjugarði er sérstakur 200 fermetra fósturreitur og var hann vígður 17. september 1994.
Á torginu framan við Fossvogskirkju er minnismerki um líf, bogmyndaður veggur með vangamynd af engli, sem vígt var 18. október 1994. Borghildur Óskarsdóttir vann verkið og hefur meðal annars til hliðsjónar mynd á silfurþynnu, broti, úr fornri barnsgröf sem dr. Kristján Eldjárn fann við uppgröft í Skálholti árið 1954.

Á minnisvarðann um líf eru rituð orðin úr 139. Davíðssálmi: “Augu þín sáu mig er ég enn var ómyndað efni.”

Bálfarir tíðari en áður

Bálfarir hafa hægt og sígandi færst í vöxt hér á landi og eru þær um 17% af öllum útförum á höfuðborgarsvæðinu, en rúmlega 11% ef miðað er við heildartölu útfara á öllu landinu árið 1996.
Einstaklingur sem vill gefa yfirlýsingu um að útför hans verði bálför getur snúið sér til útfararstofu eða forráðamanna kirkjugarða og fengið þar sérstakt eyðublað til þess að fylla út. Viðkomandi aðilar sjá síðan um að afla tilskilinna leyfa og skrá óskina hjá Bálstofunni.
Aðstandendur velja milli jarðarfarar og bálfarar ef ekki liggur fyrir ósk hins látna.
Samgöngumál hafa þróast á þann veg að búseta utan höfuðborgarsvæðisins tálmar því ekki lengur að bálför sé valin. Skrifstofa Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma veitir allar upplýsingar í þessu sambandi og gefur leiðbeiningar um hentugasta flutningsmáta. Leitast er við að tryggja að enginn eða sem minnstur viðbótarkostnaður sé í því fólginn að velja bálför hvar á landinu sem viðkomandi einstaklingur hefur verið búsettur.

Lög og reglur um bálfarir

Í lögum númer 36 frá 1993 um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu eru ýmis ákvæði um bálfarir. Þar segir meðal annars að óheimilt sé að greftra lík eða brenna nema dánarvottorð liggi fyrir svo og vottorð sýslumanns eða umboðsmanns hans um að tilkynning hafi borist um látið, samanber skiptalög.

Áður en líkbrennsla fer fram þarf enn fremur að vera fyrir hendi vottorð lögreglustjóra þess efnis að hann sjái ekkert því til fyrirstöðu að bálför eigi sér stað. Útfararstofur sjá um að útvega slíkt vottorð.
Í lögunum segir enn fremur: “Líkbrennsla hér á landi má eingöngu fara fram í stofnunum sem dóms- og kirkjumálaráðuneytið löggildir.

Búa ber um öskuna í þar til gerðum duftkerum sem skylt er að varðveita í kirkjugarði eða löggiltum grafreit. Skal grafa kerin niður í grafarstæði eða leggja þau í leiði ef vandamenn óska þess. Dýpt duftkersgrafar skal vera um 1 metri.

Kirkjugarðsstjórn getur ákveðið sérstakan reit í kirkjugarði fyrir duftker og á stærð hvers leiðis jafnan að vera hin sama, um 1/2 fermetri.
Nöfn þeirra er hvíla í duftreit skal rita í legstaðaskrá og eru grafirnar tölusettar.

Minnisvarðar í duftreitum Kirkjugarða Reykjavíkur mega aðeins vera púltsteinar. Þykkt þeirra skal vera 5 sm við fremri brún og 15 sm við aftari brún. Þeir skulu vera 40 sm á lengd og 35 sm á breidd. Ef um fjölskyldureit er að ræða skal hann vera 8 sm við fremri brún og 18 sm við aftari brún, 50 sm á lengd og 45 sm á breidd.

Bálför hagkvæmur kostur

Grafarstæði fyrir kistu krefst sex sinnum meira landrýmis en duftgröf. Af þessu leiðir að frá sjónarmiði landnotkunar og viðhalds kirkjugarða eru bálfarir mjög hagkvæmur kostur. Ekki þarf að gera eins miklar kröfur til grafardýpis, grunnvatnsstöðu og frárennslisaðstæðna í grafreitum fyrir duftker eins og í hefðbundnum grafreitum og eru þetta allt atriði sem gera duftgarða að ódýrum kosti miðað við kirkjugarða þar sem kistur eru jarðsettar.

Þar sem verulegur hluti íbúa velur bálför umfram jarðsetningu í kistu opnast möguleikar til þess að taka aftur grafir í gömlum kirkjugörðum sem fullsettir hafa verið. Jafnvel er hægt að taka aftur í notkun fjölskyldugrafreiti og nýta þá kynslóð eftir kynslóð. Vert er að hafa í huga að gamlir kirkjugarðar eru oft á tíðum með fegurstu og friðsælustu stöðum í bæjum og það hefur sitt gildi fyrir viðhald garðanna og fegrun að þeir séu nýttir áfram. Talsvert er um að duftker séu lögð í leiði í kirkjugörðum og er ekkert því til fyrirstöðu ef fyrir hendi er leyfi vandamanna.

Af hálfu íslensku þjóðkirkjunnar hefur því ekki verið haldið fram að bálför stríði gegn kristinni trú. Bálför er eins og jarðarför meðhöndlun á líkamanum eftir andlát. Hún snýst hvorki um trú né kenningu. Það má hins vegar halda því fram að bálför víki frá eldri kirkjulegri venju. En þá er þess að gæta að venjur og siðir innan kirkjunnar hafa síður en svo verið óumbreytanlegir í aldanna rás.

Bálstofan og Bálfararfélag Íslands
Hér á Íslandi varð það raunin eins og á Englandi að læknar gerðust baráttumenn fyrir bálförum á fyrstu áratugum tuttugustu aldar. Þeir bentu á að umbúnaður jarðneskra leifa væri oft á tíðum til vansa sökum fjárskorts og vanhirðu. Því bæri brýna nauðsyn til að koma upp bálstofu af hreinlætis- og heilbrigðisástæðum.

Árið 1915 samþykkti Alþingi lög um líkbrennslu á Íslandi að frumkvæði Sveins Björnssonar, síðar forseta.

Árið 1930 skipaði bæjarstjórn Reykjavíkur nefnd sem gera átti tillögur um bálstofu og staðsetningu hennar og Jón Þorláksson borgarstjóri fól verkfræðingi að gera teikningar og kostnaðaráætlun.

Nokkurt hlé varð á þessum áætlunum og gerðist lítið fyrr en árið 1934 að Bálfararfélag Íslands var stofnað. Í stjórn þess voru kosnir Gunnlaugur Claessen læknir, Benedikt Gröndal verkfræðingur, Ágúst Jósefsson heilbrigðisfulltrúi, Björn Ólafsson stórkaupmaður og Gunnar Einarsson prentsmiðjustjóri.

Á árinu 1935 var rætt um það í stjórninni að hægt væri að fá hagkvæm kjör á líkbrennslu í Kaupmannahöfn og möguleiki væri á að senda lík þangað með Eimskip þar til bálfararstofu hefði verið komið upp á Íslandi.

Bálstofumálið varð að hitamáli í blöðum. Forvígismenn félagsins skrifuðu greinar til að útbreiða þekkingu um bálfarir, en fengu á sig ádeilugreinar og skopstælingu í tímaritum og blöðum.

Í upphafi var ætlunin að reisa bálstofu í kirkjugarðinum við Suðurgötu eða á Sunnuhvolstúni, en frá því var horfið er framkvæmdir í Fossvogskirkjugarði komust á döfina, en forystu fyrir þeim hafði Knud Ziemsen á vegum safnaðarstjórnar Dómkirkjunnar.

Árið 1945 veitti viðskiptaráð Bálfararfélagi Íslands samþykki sitt til yfirfærslu gjaldeyris vegna kaupa á tveimur rafmagnshituðum líkbrennsluofnum frá Svíþjóð. Bálfararfélagið náði markmiði sínu er fullkomin bálstofa var reist 1948 við Fossvogskirkju. Fyrsta bálför á Íslandi fór fram þann 31. júlí 1948 þegar jarðneskar leifar dr. Gunnlaugs Claessen voru brenndar.

Þegar kröfur um bálfarir voru settar fram í lok nítjándu aldar voru heilbrigðis- og hreinlætissjónarmið í fyrirrúmi. Þessi sjónarmið eru enn í fullu gildi, en nú eru það fyrst og fremst hagkvæmnissjónarmið svo og viðhorf sem tengjast umhverfis- og mengunarmálum sem höfð eru að leiðarljósi.

Nýlega hafa ofnarnir í Bálstofu Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma verið lagfærðir og þannig búið um hnúta að rekstur þeirra standist kröfur um mengunarvarnir og heilbrigðishætti.

Bálfarir eiga sér langa sögu
Fræðimenn eru sammála um að rekja megi sögu líkbrennslu aftur til fyrri hluta steinaldar, þ.e.a.s. 3000 f. Kr. Þegar leið á steinöldina breiddist líkbrennsla út norður eftir Evrópu, allt til Rússlands, þar sem grafin hafa verið upp skreytt duftker frá þeim tíma.
Á öndverðri bronsöld (2500-1000 f. Kr.) barst líkbrennsla til landssvæða þar sem nú eru Bretlandseyjar, Spánn og Portúgal. Grafreitir, þar sem duftker voru jarðsett, finnast frá þessum tíma á landssvæðum þar sem nú er Ungverjaland, Norður-Ítalía, norðanverð Evrópa og Írland.

Á tímabilinu 1000 f. Kr. og fram til fyrstu alda fyrir Kristsburð, varð líkbrennsla algeng í útfararsiðum Grikkja og varð ríkjandi á dögum Hómers um 800 f. Kr. Rómverjar fylgdu síðar dæmi Grikkja og tóku upp líkbrennslu um 600 f. Kr.
Á tíma rómverska heimsveldisins, frá 27 f. Kr. til 395 e. Kr. var líkbrennsla mjög algeng og frá þessum tíma eru til fagurlega skreytt duftker í sérstökum byggingum sem kallast “columbarium”.

Í gyðingdómi og í frumkristni var aftur á móti algengara að um hina látnu væri búið í grafhvelfingum og um 400 e. Kr., eftir að Konstantínus mikli gerði kristna trú að ríkistrú, var líkbrennsla nær aflögð í hinu rómverska ríki til aðgreiningar frá grafarsiðum heiðinna manna.
Hvarvetna á Norðurlöndum voru bálfarir alþekktar á víkingaöld. Frágangur kumla með haugfé og öðru, sem við átti, var eins, hvor aðferðin sem viðhöfð var.

Margt bendir til þess að bálfararsiðurinn hafi verið aflagður af því fólki sem fór að nema ný lönd á víkingaöld, m.a. á Orkneyjum, Hjaltlandseyjum, Færeyjum, Íslandi og í nýbyggðum fyrir vestan haf. Örfá dæmi eru um brunakuml á eyjum í Norður-Atlantshafi og vestan hafs en yfirleitt er um að ræða fremur fábreytt beinakuml. Þó er talið að á sumum svæðum á Norðurlöndum hafi bálfarir oft á tíðum verið algengasti útfararsiðurinn, þar til meirihluti íbúa tók kristni. Ástæðan var þó ekki trúarlegs eðlis, heldur fremur sú að kristnir menn vildu aðgreina útfararsiði sína frá þeim siðum sem fyrir voru.

Bálfararhreyfing nútímans á rætur sínar að rekja til miðrar 19. aldar þegar Brunetti, ítalskur prófessor, þróaði og fullgerði líkbrennsluofn sem sýndur var á heimssýningunni í Vín árið 1873. Á Bretlandi var Sir Henry Thompson, skurðlæknir Viktoríu drottningar, frumkvöðullinn. Hann stofnaði ásamt starfsbræðrum sínum Bálfararfélag Englands (Cremation Society of England) árið 1874 og fyrsta bálstofan í Evrópu var byggð árið 1878 í borginni Woking á Englandi og á sama tíma reis bálstofa í Gotha í Þýskalandi.

Í þann tíð var allt aðþrengt í kirkjugörðum, sem voru inni í miðjum borgum og var frágangur ekki sem skyldi. Forvígismenn bálfaranna vildu láta leggja bann við jarðsetningu í þéttbýli og ráku áróður fyrir líkbrennslu. Hún var að þeirra dómi eina leiðin til þess að tryggja viðunandi hreinlætis- og heilbrigðisaðgæslu við útfarir. Tækniframfarir höfðu einnig leitt til þess að við lok nítjándu aldar gátu verkfræðingar látið gera hentugan ofn til bálfara, svokallaðan sjálfkveikiofn.
Þannig voru fyrir hendi tæknilegar forsendur til þess að breyta útfararháttum almennt yfir í bálfarir.

Í Bandaríkjunum var fyrsta bálstofan sett á laggirnar í Washington, Pennsylvaníu, árið 1876 og þar áttu mótmælendaprestar og læknar stærstan þátt í bálfararhreyfingunni, en þeir vildu bæta grafarsiði og taka mið af heilbrigðissjónarmiðum eins og starfsbræður þeirra í Evrópu.
Í fyrstu var ekki annað sýnna en að hugmyndin um bálfarir næði verulegri fótfestu í flestum löndum Evrópu. Það kom hins vegar til deilna milli kaþólsku kirkjunnar og forgöngumanna bálfararhreyfingarinnar. Þær urðu þess valdandi að páfinn bannaði kaþólskum bálfarir árið 1886. Þetta bann var í gildi til ársins 1964. Bálfararhreyfingin mætti andstöðu víðar en í kaþólskum löndum, til að mynda í Svíþjóð.

Þróun bálfara á síðari hluta þessarar aldar hefur orðið hröð víða um heim. Í Evrópu er hlutfallið hvað hæst í Tékklandi, en þar eru bálfarir rúmlega 72% af tölu útfara. Bretland fylgir fast á eftir með tæplega 71% hlutfall. Í Bandaríkjunum er hlutfallið rúmlega 20%, en í Japan eru bálfarir tíðastar, þar er hlutfallið tæplega 99% af tölu útfara. Á Norðurlöndum hefur þessi þróun orðið mjög hröð. Í Danmörku er hlutfallið hæst, þar eru bálfarir 69% af tölu útfara og næst kemur Svíþjóð með 65% hlutfall. Í Noregi er hlutfallið 30%, í Finnlandi er það 20% og á Íslandi tæplega 12%. (Tölur hér að framan eru miðaðar við árið 1996).

Það skal ítrekað að þetta eru aðeins dæmi um hvernig athafnir fara oftast fram. Aðstandendum er bent á að hika ekki við að bera fram aðrar óskir við prest/athafnastjóra eða útfararstjóra.